Ársskýrsla 1992

Markmið Sjávarútvegsstofnunar

Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands var stofnuð 8. júní 1989 með reglugerð frá Menntamálaráðuneytinu. Samkvæmt reglugerðinni eru markmið Sjávarútvegsstofnunar eftirfarandi:

• að efla og samhæfa rannsóknir í sjávarútvegsfræðum við Háskóla Íslands,

• að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviði sjávarútvegsfræða,

• að gefa út og kynna niðurstöður rannsókna í sjávarútvegsfræðum,

• að veita upplýsingar og ráðgjöf í sjávarútvegsmálum,

• að styðja kennslu og þjálfun í sjávarútvegsfræðum, einkum til meistaraprófs,

• að gangast fyrir námskeiðum og fyrirlestrum í sjávarútvegsfræðum.

 

Stjórn stofnunarinnar skipa:

Ragnar Árnason, formaður,

prófessor í fiskihagfræði við viðskipta- og hagfræðideild,

Gísli Pálsson,

prófessor í mannfræði við félagsvísindadeild,

Páll Jensson,

prófessor í rekstrarverkfræði við verkfræðideild,

Valdimar K. Jónsson,

prófessor í vélaverkfræði við verkfræðideild,

Logi Jónsson

dósent í lífeðlisfræði við raunvísindadeild.

Forstöðumaður stofnunarinnar er

Örn D. Jónsson

Þróunar- og samstarfsverkefni

Norræna sjávarútvegslíkanið

Undanfarin ár hefur verið í smíðum hermilíkan fyrir stjórn fiskveiða og er það nú orðið keyrsluhæft. Verkefnið er tvíþætt. Annars vegar að hanna almennt norrænt líkan fyrir stjórn fiskveiða og hins vegar þróa sértæka íslenska útgáfu líkansins. Íslenska útgáfan er langt komin. Einnig er í undirbúningi norsk útgáfa að líkaninu.

Fjölmargir aðilar tengjast verkefninu auk starfsmanna Háskóla Íslands og má nefna Sjávarútvegsráðuneytið, Þjóðhagsstofnun, Hafrannsóknastofnunina, Byggðastofnun og Félag íslenskra iðnrekenda. Verkefnið er stutt af Norrænu ráðherranefndinni og Sjávarútvegsráðuneytinu.

Stjórn fiskveiða, markaðsþróun og úrvinnsla fisks í sjávarbyggðum

Í gangi er þriggja ára norrænt samstarfsverkefni um úrvinnslu og markaðssetningu sjávarafurða í þeim byggðum Norðurlanda sem byggja að miklu leyti á fiskveiðum. Fyrsta stig verkefnisins var samanburður á stöðu sjávarútvegs á þeim svæðum sem byggja lífsafkomu sína á sjávarútvegi á Grænlandi, Færeyjum, Danmörku, Íslandi og Noregi og eru niðurstöðurnar birtar í bókinni Fiskerinæringens hovedtrekk - Landsanalyser.

Áhrif EES á íslenskan sjávarútveg

Unnin var greinagerð fyrir Samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi (SAS) um áhrif EES á íslenskan sjávarútveg.

Afkoma smábátaútgerðar 1989

Landssamband smábátaeigenda fór þess á leit við Sjávarútvegsstofnun að hún kannaði rekstrarafkomu smábáta en slíkar tölur er aðeins að hluta til að finna í birtum gögnum Fiskifélagsins og Þjóðhagsstofnunar. Niðurstöður athugunarinnar voru birtar í skýrslu sem gefin var út nóvember 1992.

Starfsemi ársins

Starfsemi Sjávarútvegsstofnunar var fjölþætt árið 1992. Í stórum dráttum má segja að unnið hafi verið að öllum markmiðum þeirrar reglugerðar sem stofnuninni er sett. Á árinu voru starfrækt fimm umfangsmikil samstarfsverkefni. Þrjú verkefnanna eru fyrst og fremst líffræðilegs eðlis; rannsóknir á botndýralífi umhverfis landið, vinnsla ensíma úr þorskslógi á Ísafirði og forathugun á forsendum eldis hlýsjávarfiska í endurnýtingarkerfum með aðstoð jarðvarma. Fjórða verkefnið var hermilíkan fyrir stjórn fiskveiða og það fimmta félagshagfræðilegur samanburður á stöðu sjávarbyggða við Norður-Atlantshaf.

Á árinu voru haldnar fjórar ráðstefnur auk smærri málstofa um sjávarútvegsmál. Tvær ráðstefnur tengdust fjölstofnarannsóknum. Önnur var um líkanagerð en hin fjallaði um aðferðafræði við rannsóknir á rándýrum sjávar og vatna. Þá var haldin ráðstefna um stjórn fiskveiða og skiptingu fiskveiðiarðsins og önnur um félagsfræðilegar rannsóknir í sjávarútvegi.

Fyrir forgöngu Sjávarútvegsstofnunar voru gefnar út fjórar bækur á árinu. Bókin Whales and Ethics inniheldur safn fyrirlestra sem haldnir voru á vegum Sjávarútvegsstofnunar í tengslum við fund Alþjóðlega hvalveiðiráðsins hér á landi 1991. Þá gaf stofnunin út bókina Stjórn fiskveiða og skipting fiskveiðiarðsins en hún hefur að geyma fimm fyrirlestra með efni eftir jafn marga höfunda. Þriðja bókin er samantekt um þróun þeirra landssvæða á Norðurlöndum sem eru hvað háðust fiskveiðum, þ.e. Ísland, Færeyjar, Grænland, Jótland og Norður-Noregur. Bókin er á norðurlandamálum og nefnist Fiskerinæringens hovedtrekk - Landsanalyser og er gefin út í samvinnu við NordRefo. Þá kom út á árinu lýsing á norræna sjávarútvegslíkaninu; Nordic Fisheries Management Model - Comprehensive Description, gefin út í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina.

Unnið var að því að fá stöðu fiskifræðiprófessors við Háskóla Íslands og fékkst heimild fyrir henni á fjárlögum og er það mikilvægur áfangi fyrir Háskóla Íslands. Lögð voru drög að undirbúningi meistaranáms í sjávarútvegsfræðum og var sett á stofn nefnd í því skyni í ársbyrjun 1993.

"hætt er að segja að rekstur stofnunarinnar hafi eflst mjög á árinu 1992. Rekstur hennar tvöfaldaðist frá fyrra ári, bæði hvað varðar umfang og veltu. Einkum var starfsemin í tengslum við rannsókna- og þjónustuverkefni blómleg. Töluvert af starfi stofnunarinnar var unnið í samstarfi við norræna aðila og stofnanir. Á komandi árum er stefnt að því að auka áherslu á vísindalegt starf stofnunarinnar og þá sérstaklega innlend og alþjóðleg samstarfsverkefni á því sviði. Einnig er fyrirhugað að efla útgáfu fræðirita um sjávarútvegsmál.

Málþing

Boðið var til málstofu hálfsmánaðarlega á haustmisseri. Fjallað var um málefni tengd sjávarútvegi og voru frummælendur frá Háskóla Íslands auk innlendra og erlendra gestafyrirlesara.

Ráðstefna um stjórn fiskveiða og skiptingu fiskveiðiarðsins

Í ársbyrjun var haldin ráðstefna um stjórn fiskveiða og skiptingu fiskveiðiarðsins og var hún ágætlega sótt. Ráðstefnurit var gefið út í samvinnu við Háskólaútgáfuna.

Ráðstefna um fjölstofnarannsóknir og líkanagerð

Norræn ráðstefna var haldin í Hirtshals um gerð fjölstofnalíkana. Lokið hefur verið við útgáfu bókar með fyrirlestrum ráðstefnunnar og er í undirbúningi að halda framhaldsráðstefnu á Íslandi.

Ráðstefna um rándýr hafsins - fjölstofnarannsóknir og vistfræðileg aðferðafræði

Í Stykkishólmi fór fram alþjóðleg ráðstefna um fæðukeðju hafsins og þá sérstaklega aðferðafræði og líkanagerð við rannsóknir á samspili fisks og annarra dýra í hafi og vötnum. Unnið er að útgáfu ráðstefnurits.

Ráðstefna um félagslegar og sagnfræðilegar rannsóknir á sjávarútvegi

Haldin var ráðstefna um félagslegar rannsóknir á málefnum sem tengjast sjávarútvegi og voru haldnir fyrirlestrar á sviði mannfræði, sagnfræði, félagsfræði og félagshagfræði.

Notkun jarðvarma við eldi hlýsjávarfiska

Unnið hefur verið að athugun á möguleikum þess að ala hlýsjávarfiska við íslenskar aðstæður. Um er að ræða eldi barra og hugsanlega gullbrama og sandhverfu. Verkefnið er unnið af sérfræðingum Háskóla Íslands í samvinnu við fyrirtæki á Sauðárkróki og IFREMER í Frakklandi. Stofnað hefur verið undirbúningsfélag á Sauðárkróki og stefnt er að því að koma á fót evrópsku samstarfsverkefni um þauleldi í lokuðum kerfum með aðstoð jarðvarma. Þrír vísindamenn frá IFREMER komu í því skyni í tíu daga heimsókn til Íslands s.l. haust.

Botndýrarannsóknir á Íslandsmiðum

Sett hefur verið á stofn rannsóknarstöð í Sandgerði sem vinnur að flokkun botndýrasýna.

Við verkefnið starfa 9 fastir starfsmenn en að auki vinna innlendir og erlendir sérfræðingar að einstökum þáttum þess. Að verkefninu standa, auk Háskólans, Hafrannsóknastofnunin, Náttúrufræðistofnun, Sandgerðisbær og Umhverfisráðuneytið.

Úrvinnsla Cryotíns úr þorskslógi - líftækni á Ísafirði

Komið var á fót tilraunavinnslu á Ísafirði og er unnin ensímblanda (nefnd Cryotin) til áframhaldandi hreinsunar. Einnig er fyrirhugað að athuga hvaða möguleikar eru á að nota Cryotínblöndur við vinnslu sjávarafurða. Verkefnið er unnið af Raunvísindastofnun háskólans í samvinnu við Þróunarfélag Vestfjarða og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.

Útgáfa

1990

Þorkell Helgason, Örn D. Jónsson (Ritstj.): Hagsæld í húfi.

Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1990.

1991

Noralv Veggeland (Ritstj.): Når fisken svigter. NordRefo, Akademisk forlag, Kaupmannahöfn 1991.

Ragnar Árnason, Trond Björndal (Ritstj.): Esseys on the Economics of Micratory Fish Stocks.Springer Verlag, Berlin 1991

1992

Nordic Fisheries Management Model Comprehensive Description, Nordiske Seminar og Arbejdsrapporter, 1992:501, København 1992

Örn D. Jónsson (Ritstj.): Whales & Ethics. Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1992.

Gísli Pálsson, Ragnar Árnason, Örn D. Jónsson (Ritstj.): Stjórn fiskveiða og skipting fiskveiðiarðsins. Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1992.

Bjørn Hersoug (Ritstj.): Fiskerinæringens hovedtrekk Landsanalyser av Danmark, Færøyene, Grønland, Island og Norge. Nord 1992:30, Kaupmannahöfn 1992.