Ársskýrsla 1993

Markmið Sjávarútvegsstofnunar

Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands var stofnuð 8. júní 1989 með reglugerð frá Menntamálaráðuneytinu. Samkvæmt reglugerðinni eru markmið Sjávarútvegsstofnunar eftirfarandi:

• að efla og samhæfa rannsóknir í sjávarútvegsfræðum við Háskóla Íslands,

• að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviði sjávarútvegsfræða,

• að gefa út og kynna niðurstöður rannsókna í sjávarútvegsfræðum,

• að veita upplýsingar og ráðgjöf í sjávarútvegsmálum,

• að styðja kennslu og þjálfun í sjávarútvegsfræðum, einkum til meistaraprófs,

• að gangast fyrir námskeiðum og fyrirlestrum í sjávarútvegsfræðum.

 

Stjórn stofnunarinnar skipa:

Ragnar Árnason, formaður,

prófessor í fiskihagfræði við viðskipta- og hagfræðideild,

Gísli Pálsson,

prófessor í mannfræði við félagsvísindadeild,

Páll Jensson,

prófessor í rekstrarverkfræði við verkfræðideild,

Valdimar K. Jónsson,

prófessor í vélaverkfræði við verkfræðideild,

Logi Jónsson

dósent í lífeðlisfræði við raunvísindadeild.

Forstöðumaður stofnunarinnar er

Örn D. Jónsson

Starfsemi ársins

Sjávarútvegsstofnun hefur verið starfrækt í tæplega fimm ár. Starfssemin hefur vaxið og er í dag orðinn samstarfvettvangur sem veltir tæplega þrjátíu milljónum.

Þegar í upphafi var tekin sú stefna að stofnunin ætti að vera vettvangur þverfaglegra rannsókna- og þróunarverkefna þar sem áhersla væri lögð á myndun víðtækra tengsla, bæði innanlands og utan. Aftur á móti var ekki ætlunin að stofnunin sem slík stækkaði um of. Í dag eru tveir starfsmenn tveir og er stefnt að því að bæta við einum starfsmanni til viðbótar þegar færi gefst og þá til að sinna langtíma vísindarannsóknum og útgáfumálum.

Umfangsmeiri verkefni Sjávarútvegsstofnunar eru samstarfsverkefni og hafa fjögur þeirra verið starfrækt um árabil. Verkefnin eru Norræna sjávarútvegslíkanið, Botndýrarannsóknir á Íslandsmiðum (BIOICE), Stjórn fiskveiða, Markaðsþróun og úrvinnsla fisks í sjávarbyggðum og Lokuð endurnýtingarkerfi í fiskeldi. Því fyrst nefnda er nú lokið og á árinu var komið á samstarfi við Vestmannaeyjabæ um rekstur rannsóknarstöðvar Eyjum í samstarfi við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunina. Einnig var gangsett norrænt rannsóknaverkefni af mannfræðilegum toga um tengsl manns og umhverfis.

Samkvæmt reglugerð er stofnuninni ætlað að koma á kennslu og þjálfun í sjávarútvegsfræðum. Á árinu var hafinn undirbúningur að meistaranámi og var niðurstöðum undirbúningsstarfsins skilað í árslok. Samþykkt Háskólaráðs liggur fyrir og ef fjármögnun tekst, verður kennsla hafin á haustmissi 1994. Þar með hefur fyrsta skrefið verið tekið í samstilltu átaki Sammenntar, Endurmenntunar Háskólans og Sjávarútvegsstofnunar að bjóða upp á fjölþætt nám í sjávarútvegsfræðum. Sammennt hefur þróað þrjú viku námskeið í gæðastjórnun fyrir sjávarútvegsfyrirtæki. Endurmenntun hóf eins árs nám í sjávarútvegsfræðum sem fólki býðst að sækja samhliða störfum sínum. Meistaranámið er ætlað þeim sem hafa prófgráðu frá einstökum deildum Háskólans, eða hliðstæða menntun.

Alþjóðleg samvinna hefur að mestu verið bundin við Norðurlönd, en á árinu var unnið að því að mynda víðtækari tengsl á alþjóðavettvangi. Lögð voru drög að samstarfssamningi við háskóla í Japan, Taivan og frönsku sjávarútvegsstofnunina IFREMER. Undirbúið var evrópskt samstarfverkefni með þátttöku Frakka, Þjóðverja, Hollendinga og Norðmanna undir forystu Sjávarútvegsstofnunar um lokuð endurnýtingarkerfi í fiskeldi.

Stjórnarmenn eru sammála um að veiki hlekkurinn í starfssemi stofnunarinnar sé skortur ár langtíma vísindarannsóknum. Eru bundnar vonir við að hægt verði að ráða bót á því með þeim möguleikum sem opnast með samstarfssamningi EFTA og EB á vísindasviðinu.

Fjármál Sjávarútvegsstofnunar

Frá því að Sjávarútvegsstofnun tók til starfa árið 1989 hefur starfsemi stofnunarinnar farið vaxandi. Á súluritinu hér við hliðina sést hvernig umfang stofnunarinnar hefur vaxið síðastliðin þrjú ár. Í upphafi var ljóst að stofnunin og þau verkefni sem hún rekur þyrfti að fjármagna með sértekjum og sérstökum fjárveitingum hverju sinni, en ekki yrði unnt að fjármagna reksturinn af rekstrarfé Háskóla Íslands. Það hefur orðið reyndin og sést á skífuritinu hér við hliðina að 88% tekna Sjávarútvegsstofnunar fyrir árið 1993 koma frá fyrirtækjum, stofnunum og innlendum og erlendum rannsóknasjóðum.

Málþing og útgáfur

Haldnar voru tvær málstofur á árinu. Rögnvaldur Hannesson fjallaði um Enclosure of the Commons, Two Paradoxes og Kristni Péturssyni var boðið að greina frá hugmyndum sínum um Forsendur fiskveiðistjórnunar.

Norræn ráðstefna um félagsfræðilegar rannsóknir á sjávarútvegi

Haldin var þriggja daga ráðstefna um félagslegar rannsóknir á sjávarútvegi. Fyrirlesarar voru frá Noregi, Danmörku, Færeyjum og Íslandi. Ráðstefnan var styrkt af NORFA og Norræna sumarháskólanum. Hluti fyrirlestranna var gefinn út í ritinu, Fiskerisamfund - hvilke veje? Útgefið af Norrænu ráðherranefndinni (Nord 1993: 27)

Tvö rit voru gefin út á árinu. Fyrirlestrar frá ráðstefnu sem haldin var í Stykkishólmi undir yfirskriftinni Rándýr hafsins - fjölstofnarannsóknir og vistfræðileg aðferðarfræði. Bókin er á ensku og nefnist, Nordic Workshop on Predation Processes and Predation Models(NSA 1993: 572). Einnig kom út lokaskýrsla Norræna sjávarútvegslíkansins undir heitinu Nordic Fisheries Management Model - Restriction and Exsperience (Nord 1994:4).

Helstu verkefni

Norræna sjávarútvegslíkanið

Norræna sjávarútvegslíkanið er hermilíkan um stjórn fiskveiða sem unnið er í hlutbundinni forritun. Verkefnið er tvíþætt. Annars vegar var hannað almennt norrænt líkan fyrir stjórn fiskveiða, hins vegar var unnin íslensk útgáfa af líkaninu. Þróunarvinnunni er lokið og hefur hermilíkanið verið vistað hjá Hafrannsóknastofnuninni þar sem það verður unnið áfram og notað. Fjölmargir aðilar hafa tengst verkefninu auk starfsmanna Háskólans og má nefna Sjávarútvegsráðuneytið, Þjóðhagsstofnun, Hafrannsóknastofnunina og aðila á Norðurlöndum.

Verkefnið var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og Sjávarútvegsráðuneytinu.

Verkefnisstjóri: Dr. Snjólfur ”lafsson, dósent í aðgerðagreiningu.

Stjórn fiskveiða, markaðsþróun og úrvinnsla fisks í sjávarbyggðum

Verkefnið felst í úttekt á þeim byggðum Norðurlanda sem byggja afkomu sína á veiðum og vinnslu sjávarfangs. Fyrsta hluta verkefnisins er lokið og voru niðurstöður birtar í bókunum Fiskerinæringens hovedtrekk - landsanalyser (Nord 1992:30) og Den genstridige tilpasning (NordRefo). Annar hluti verkefnisins er ítarleg úttekt á mikilvægustu einkennum svæðisins með hliðsjón af aukinni verðmætasköpun í heimabyggð. Norðmenn fjalla um aðskilnað veiða og vinnslu og hvernig heimsmarkaðurinn fyrir fisk sem hráefni er að eflast með Barentssvæðið sem dæmi. Danir gera úttekt á kostnaðarsamsetningu í vinnslu bolfisks á Jótlandi, auk þess að greina breytingar á dreifi- og söluleiðum fisks í Evrópu. Færeyingar fjalla um núverandi kreppuaðgerðir í færeyskri fiskvinnslu og Íslendingar fjalla um þróun fullvinnslu og þá sérstaklega á Íslandi. Verkefninu lýkur í byrjun ársins 1995 með alþjóðlegri ráðstefnu sem að öllum líkindum verður haldin á Íslandi.

Verkefnið er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni, Norrænu byggðarannsóknastofnuninni, Vestnorræna sjóðnum, Landsvæðisnefnd Norður Noregs og NÄRP.

Verkefnisstjóri: Örn D. Jónsson, forstöðumaður Sjávarútvegsstofnunar

Lokuð endurnýtingarkerfi í fiskeldi

Undanfarin ár hefur verið unnið að því að athuga með hvaða hætti nota megi jarðvarma í fiskeldi. Lengst af hefur verið litið svo á að heitt vatn væri einn þeirra þátta sem gerði Ísland að ákjósanlegu fiskeldislandi. Enn sem komið er hefur jarðvarminn ekki haft þá þýðingu sem vænst var. Hluti af skýringunni liggur í kostnaði við nýtingu orkunnar. Um árabil hefur verið í undirbúningi verkefni þar sem saman er tekin sú þekking sem til er um lokuð endurnýtingarkerfi. Verkefnið er unnið með innlendum laxeldisfyrirtækjum, en einnig verða gerðar tilraunir með eldi hlýsjávarfiska og hefur barri (Sea Bass) orðið fyrir valinu. Leyfi hefur fengist fyrir innflutningi á hrognum og seiðum af þessari tegund og er verið að setja upp eldisaðstöðu á Sauðárkróki.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Máka h/f á Sauðárkróki, IFREMER, Frakklandi og styrkt af Rannsóknaráði ríkisins.

Verkefnisstjóri: Dr. Logi Jónsson, dósent í lífeðlisfræði.

Botndýrarannsóknir á Íslandsmiðum

Árið 1991 hófst verkefnið Botndýrarannsóknir á íslandsmiðum (BioIce) og er markmiðið að rannsaka hvaða botndýrategundir lifa innan íslenskrar efnahagslögsögu, skrá útbreiðslu þeirra, magn og tengsl þeirra við aðrar lífverur sjávar.

Farnir hafa verið sex rannsóknarleiðangrar, þar af þrír á árinu 1993. Norsk og færeysk rannsóknaskip hafa farið leiðangrana auk skipa Hafrannsóknastofnunarinnar. Sýnin eru flokkuð og greind í rannsóknastöð verkefnisins í Sandgerði og starfa þar um 10 manns að jafnaði. Í flokkunarstöðinni eru einnig greind magasýni fyrir fjölstofnaverkefni Hafrannsóknastofnunarinnar.

Innlendir þátttakendur í verkefninu eru Hafrannsóknastofnuninin, Umhverfisráðuneytið, Náttúrufræðistofnun, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Sandgerðisbær auk Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands.

Erlendir þátttakendur eru Háskólinn og Dýrafræðisafnið í Kaupmannahöfn, Háskólinn og Náttúrufræðisafnið í Stokkhólmi, Háskólinn í Bergen, Háskólinn í Þrándheimi, Rannsóknastöðin í Kaldbak í Færeyjum, Fiskirannsóknastofan í Færeyjum og Háskólinn í Helsingi. Auk þess tengjast verkefninu allmargir vísindamenn í Evrópu og Bandaríkjunum.

Verkefnið er fjármagnað af Hafrannsóknastofnuninni, Umhverfisráðuneytinu, Sandgerðisbæ, Fiskveiðisjóð íslands, Háskóla Íslands, Háskólanum í Bergen, Norræna Sjávarlíffræðiráðinu, Fiskirannsóknastofunni og rannsóknastöðinni að Kaldbak í Færeyjum, Vestnorræna sjóðnum og Norrænu ráðherranefndinni.

Verkefnisstjóri: Guðmundur V. Helgason, M. sc.

Úrvinnsla Cryotíns úr þorskslógi - líftækni á Ísafirði

Starfrækt er tilraunavinnsla á Ísafirði og er unnin ensímblanda (nefnd Cryotin) til áframhaldandi hreinsunar. Úr Cryotin-blöndunni hefur síðan verið unninn Elastasi og Collagenasi hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Tekist hefur vel til við hreinsun efnanna og eru sýni nú til skoðunnar hjá nokkrum fyrirtækjum erlendis. Tilraunavinnslunni er nú að mestu lokið og hefur verið gerð úttekt á möguleikum þess að koma á fót framleiðslu. Niðurstaða þeirrar úttektar var að tryggja verði að afurðirnar hefðu eiginlega sérstöðu á markaðinum vegna ákjósanlegrar sérvirkni þeirra.

Verkefnið var unnið af Raunvísindastofnun í samvinnu við Þróunarfélag Vestfjarða, útibú Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins og fyrirtækja á Ísafirði auk Sjávarútvegsstofnunar.

Verkefnið var styrkt af Byggðastofnun.

Verkefnisstjóri: Bergur Benediktsson, deildarverkfræðingur, Raunvísindadeild

Frostþurrkun sjávarfangs

Unnið var að markaðs- og hagkvæmnisathugun á frostþurrkun sjávarfangs hér á landi. Verkefnið byggir á rannsóknum sem gerðar hafa verið á vegum vélaverkfræðiskorar á hagnýtingu jarðvarma til frostþurrkunar. Niðurstöður markaðsathugunarinnar voru í stuttu máli þær að hér væri um verðmætar vörur að ræða sem hefðu þegar fjölmarga sérmarkaði, annaðhvort sem íblöndun í fullunnar vörur eða sjálfstæðar afurðir til sérhæfðra nota s.s. matvæli fyrir fjallgöngumenn. Í skýrslunni er lagt til að kannað verði nánar hvort helstu notendur frostþurrkaðra afurða í tilbúna rétti hafi áhuga á samstarfi um framleiðslu og þróun afurðanna. Gengið var til samstarfs við Hitaveitu Suðurnesja um framhald verkefnisins.

Að verkefninu stóðu auk Sjávarútvegsstofnunar, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Tækniþróun h.f..

Verkefnið var styrkt af Rannsóknaráði ríkisins og Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Umsjón: Finnur Stefánsson, Bs. econ.

Rannsóknir á fiskveiðisamfélagi

Norrænt samstarfsverkefni um rannsóknir á fiskveiðisamfélögum frá mannafræðilegu og félagsfræðilegu sjónarhorni. Áhersla er lögð á að greina og meta þær breytingar sem eiga sér stað með breyttum veiðiháttum, frá frjálsum aðgangi að auðlindum hafsins, til lokaðs stjórnkerfis. Þátttakendur eru frá Noregi og Svíþjóð auk Íslands.

Verkefnið er styrkt af NOS-S og NÅRP.

Verkefnisstjóri er Dr. Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði

Samstarf Háskóla Íslands og Vestmannaeyja

Á árinu var komið á samstarfi Háskóla Íslands og Vestmannaeyja um sjávarútvegstengdar rannsóknir. Fjárveiting fékkst fyrir stofnun útibús Háskólans í Vestmannaeyjum og eitt stöðugildi til að starfrækja útibúið. Allmörg verkefni eru í undirbúningi, þ.á.m. meistaranámsverkefni um samstarf fyrirtækja á sviði fiskvinnslu, fisksjúkdóma í sjávarfiskum, öryggismál sjómanna, og rannsóknir á lífríkinu umhverfis eyjar.

Stjórnarformaður samstarfsins er Dr. Þorsteinn I. Sigfússon, prófessor í eðlisfræði

Umsjón hefur Sjávarútvegsstofnun.

Meistaranám í sjávarútvegsfræðum

Nefnd til að undirbúa meistaranám í sjávarútvegsfræðum við Háskóla Íslands var skipuð 17. nóvember 1992. Niðurstöður nefndarinnar voru að starfrækja ætti tveggja ára meistaranám sem skiptist í þrjá hluta, kjarna (20 e), sérsvið (10-20 e) og rannsóknarverkefni (20-30e). Helstu markmið námsins eru (a) að veita vandaða hagnýta og fræðilega menntun til starfa á hinum ýmsu sviðum sjávarútvegs og í stoðgreinum hans og (b) að veita með náminu fullnægjandi undirbúning að frekara háskólanámi, m.a. doktorsnámi.

Námið byggir að uppistöðu til á námskeiðum sem þegar eru kennd við háskólann, en þó verður að búa til nokkur ný námskeið. Samráð var haft við fjölda aðila innan Háskólans og utan við undirbúning meistaranámsins.

Formaður nefndarinnar var Dr. Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði.

Samstarf við háskóla í Japan og Tævan

Forstöðumaður stofnunarinnar fór til Japan og Tævan ásamt forstjóra Rf. og var tilgangur fararinnar að koma á rannsóknasamstarfi við japanska og tævanska háskóla og stofnanir. Í bígerð er að halda ráðstefnu í Tævan vorið 1994 og samstarfssamningur hefur verið gerður við Tokyo University of Fisheries. Í undirbúningi er þróunarverkefni með þátttöku nokkurra fyrirtækja um markaðssetningu verðmætari sjávarafurða í Japan. Ferðin var styrkt af Sasakawa Scandinavian Foundation og Íslenskum sjávarafurðum.

Þátttaka í sjávarútvegssýningu 1993

Háskóli Íslands tók þátt í alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni sem haldin var hér á landi í september á sl. ári og hafði Sjávarútvegsstofnun umsjón með þátttöku skólans. Meðal þeirra sem kynntu rannsóknar og þróunarverkefni sín á sýningunni auk Sjávarútvegsstofnunar voru Verkfræðistofnun, Raunvísindastofnun, Sammennt, BioIce og Endurmenntunarstofnun. Háskólinn og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sameinuðust um aðstöðu á sýningunni.

Verkefnisstjóri: Eyjólfur Guðmundsson B.s., Sjávarútvegsstofnun.

Útgáfulisti

1990

Þorkell Helgason, Örn D. Jónsson (Ritstj.): Hagsæld í húfi.

Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1990.

1991

Noralv Veggeland (Ritstj.): Når fisken svigter. NordRefo, Akademisk forlag, Kaupmannahöfn 1991.

Ragnar Árnason, Trond Björndal (Ritstj.): Esseys on the Economics of Micratory Fish Stocks.Springer Verlag, Berlin 1991

1992

Nordic Fisheries Management Model Comprehensive Description, Nordiske Seminar og Arbejdsrapporter, 1992:501, København 1992

Örn D. Jónsson (Ritstj.): Whales & Ethics. Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1992.

Gísli Pálsson, Ragnar Árnason, Örn D. Jónsson (Ritstj.): Stjórn fiskveiða og skipting fiskveiðiarðsins. Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1992.

Bjørn Hersoug (Ritstj.): Fiskerinæringens hovedtrekk Landsanalyser av Danmark, Færøyene, Grønland, Island og Norge. Nord 1992:30, Kaupmannahöfn 1992.

1993

Kjartan Magnússon, Örn D. Jónsson (Ritstj.) Nordic Workshop on Predaation Processes and Predation Models. Nordiske Seminar og Arbejdsrapporter, 1993:572 Köbenhavn 1993.