Ársskýrsla 1994

Markmið Sjávarútvegsstofnunar

Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands var stofnuð 8. júní 1989 með reglugerð settri af Menntamálaráðuneyti. Samkvæmt reglugerðinni eru markmið Sjávarútvegsstofnunar eftirfarandi:

• að efla og samhæfa rannsóknir í sjávarútvegsfræðum við Háskóla Íslands,

• að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviði sjávarútvegsfræða,

• að gefa út og kynna niðurstöður rannsókna í sjávarútvegsfræðum,

• að veita upplýsingar og ráðgjöf í sjávarútvegsmálum,

• að styðja kennslu og þjálfun í sjávarútvegsfræðum, einkum til meistaraprófs,

• að gangast fyrir námskeiðum og fyrirlestrum í sjávarútvegsfræðum.

Stjórn stofnunarinnar skipa:

Ragnar Árnason, formaður,

prófessor í fiskihagfræði, tilnefndur af viðskipta- og hagfræðideild,

Gísli Pálsson,

prófessor í mannfræði, tilnefndur af félagsvísindadeild,

Páll Jensson,

prófessor í rekstrarverkfræði, tilnefndur af verkfræðideild,

Valdimar K. Jónsson,

prófessor í vélaverkfræði, tilnefndur af háskólaráði,

Logi Jónsson,

dósent í lífeðlisfræði, tilnefndur af raunvísindadeild.

Forstöðumaður stofnunarinnar:

Örn D. Jónsson.

Starfsemi ársins

Sjávarútvegsstofnun hefur starfað í tæplega sex ár. Starfsemin hefur vaxið ár frá ári og hefur stofnunin átt þátt í fjölda verkefna sem lúta að rannsóknum, þróun og markaðsmálum í sjávarútvegi.

Í reglugerð eru stofnuninni falin yfirgripsmikil verkefni. Frá upphafi hefur þeirri stefnu verið fylgt, að stofnunin væri öðru fremur þjónustustofnun. Hlutverk hennar væri fyrst og fremst að greiða fyrir og efla rannsóknir í sjávarútvegsfræðum við Háskóla Íslands, samhæfa slíkar rannsóknir og stuðla að sem víðtækustu samstarfi innlendra og erlendra rannsóknaraðila um sjávarútvegs-rannsóknir.

Hins vegar var ætlunin ekki að stofnunin sjálf yrði viðamikil. Á árinu voru fastráðnir starfsmenn stofnunarinnar aðeins tveir og árstörf þeirra um 1,7 en að auki vinnur fjöldi manna að verkefnum á vegum stofnunarinnar.

Síðar í skýrslunni er gerð grein fyrir þeim verkefnum sem unnið var að á árinu. Þar eru meðal annarra umfangsmikil samstarfsverkefni við erlenda aðila eins og Botndýrarannsóknir á Íslandsmiðum (BIOICE), Markaðsþróun og úrvinnsla fisks í sjávarbyggðum (FMR), Lokuð endurnýtingarkerfi í fiskeldi og Auðlindir og umhverfi, sem er norrænt samstarfsverkefni um fiskveiðisamfélög við Norður Atlantshaf.

Áhersla var lögð á samstarf við innlend iðnaðarfyrirtæki, einkum með öflun markaða í huga. Þar ber hæst Gjafavörur á Japansmarkað og Öryggisnet, hvort tveggja verkefni studd af Útflutningsráði. Í samvinnu við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins var unnin skýrsla um Sjávarútvegsgarð, þróunarstöð matvæla og tæknibúnaðar fyrir matvælaiðnað.

Á árinu tók til starfa Rannsóknasetur H.Í. í Vestmannaeyjum, sem Sjávarútvegsstofnun H.Í. á aðild að í samstarfi við Rannsókna-stofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnun.

Samkvæmt reglugerð er Sjávarútvegsstofnun ætlað að styðja kennslu og þjálfun í sjávarútvegsfræðum. Áfram var unnið að þróun og undirbúningi meistaranáms í sjávarútvegsfræðum, en skýrslu undir-búningsnefndar þar að lútandi hafði verið skilað í árslok 1993. Um er að ræða þverfaglegt, rannsóknartengt nám, ætlað þeim sem þegar hafa lokið fyrstu háskólagráðu eða hafa sambærilega menntun. Undirbúningur gekk að óskum og hófu tveir nemendur meistaranám í sjávarútvegsfræðum á haustmisseri 1994. Enn þarf þó að renna styrkari fjárhagslegum stoðum undir þennan þátt í kennsluframboði H.Í.

Alþjóðlegt samstarf hefur verið fjölþætt. Þar ber hæst norræn samvinnuverkefni, en einnig hefur stofnunin átt frumkvæði að rannsóknarverkefnum á vegum Evrópubandalagsins. Undirbúnir voru formlegir samstarfssamningar við háskóla í Japan og Tævan, við frönsku sjávarútvegsstofnunina IFREMER, og við ýmsa háskóla í Evrópu og Kanada tengdum The Institute of Island Studies við háskólann á Prince Edward eyju í Kanada.

Þótt vel hafi tekist til á mörgum verkefnasviðum Sjávarútvegs-stofnunar eru forráðamenn hennar þeirrar skoðunar að æskilegt sé að efla útgáfustarf og grunnrannsóknir á hennar vegum. Þröngur fjárhagur setur útgáfustarfi stofnunarinnar skorður. Vonir eru bundnar við að samstarfssamningar EFTA og ESB á vísindasviðinu muni gefa rannsóknum byr undir báða vængi.

Fjármál Sjávarútvegsstofnunar

Starfsemi Sjávarútvegsstofnunar hefur vaxið ár frá ári frá því hún var stofnuð árið 1989. Stofnunin fer með umsýslu fjármála flestra rannsóknarverkefna sem hún tekur þátt í. Meðfylgjandi súlurit sýnir hvernig fjárhagslegt umfang stofnunarinnar hefur vaxið síðastliðin þrjú ár.

Rekstur stofnunarinnar sjálfrar er fjármagnaður annars vegar af fjárveitingum til H.Í. og hins vegar af ýmsum sértekjum frá fyrirtækjum, stofnunum og innlendum og erlendum rannsóknasjóðum.

Úttektir og skýrslur

• Fyrir Utanríkisráðuneytið var unnin skýrslan

Evrópusambandið: Styrkjakerfi og samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs.

 

Í samvinnu við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins:

Sjávarútvegsgarður: Þróunarstöð matvæla og tæknibúnaðar fyrir matvælaiðnað.

 

Málþing og fundir

• Einar Eyþórsson hafði framsögu um Leiguframsal á aflaheimildum - þróun markaðar, verðmyndun og ávöxtunarkrafa.

Bergur Elías Ágústsson hafði framsögu um Samanburð á framleiðni framleiðslueininga innan sömu atvinnugreinar.

Rögnvaldur J. Sæmundsson hafði framsögu um Samstarf fyrirtækja í sjávarútvegi.

Í Vestmannaeyjum var haldin ráðstefna um Öryggi á sjó. Í kjölfar hennar var gerð könnun meðal íslenskra sjómanna um viðhorf sjómanna til öryggismála.

 

Stjórn fiskveiða, markaðsþróun og úrvinnsla fisks í sjávarbyggðum

Verkefnið felst í úttekt á þeim byggðum Norðurlanda sem byggja afkomu sína á veiðum og vinnslu sjávarfangs. Fyrsta hluta verkefnisins er lokið og voru niðurstöður birtar í bókunum Fiskerinæringens hovedtrekk - landsanalyser (Nord 1992:30) og Den genstridige tilpasning (NordRefo). Annar hluti verkefnisins er ítarleg úttekt á mikilvægustu einkennum svæðisins með hliðsjón af aukinni verðmætasköpun í heimabyggð. Norðmenn fjalla um aðskilnað veiða og vinnslu og hvernig heimsmarkaðurinn fyrir fisk sem hráefni er að eflast með Barentssvæðið sem dæmi. Danir gera úttekt á kostnaðarsamsetningu í vinnslu bolfisks á Jótlandi, auk þess að greina breytingar á dreifi- og söluleiðum fisks í Evrópu. Færeyingar fjalla um kreppuaðgerðir í færeyskri fiskvinnslu og Íslendingar fjalla um þróun fullvinnslu, einkum á Íslandi. Verkefninu lýkur með alþjóðlegri ráðstefnu 1995.

Verkefnið er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni, Norrænu byggðarannsóknastofnuninni, Vestnorræna sjóðnum, Landsvæðisnefnd Norður Noregs og NÄRP.

Verkefnisstjóri: Örn D. Jónsson, forstöðumaður Sjávarútvegsstofnunar.

Lokuð endurnýtingarkerfi í fiskeldi

Undanfarin ár hefur verið unnið að því að athuga með hvaða hætti nota megi jarðvarma í fiskeldi. Lengst af hefur verið litið svo á að heitt vatn væri einn þeirra þátta sem gerði Ísland að ákjósanlegu fiskeldislandi. Enn sem komið er hefur jarðvarminn ekki haft þá þýðingu sem vænst var. Hluti af skýringunni liggur í kostnaði við nýtingu orkunnar. Um árabil hefur verið í undirbúningi verkefni þar sem saman er tekin sú þekking sem til er um lokuð endur-nýtingarkerfi. Verkefnið er unnið með innlendum laxeldisfyrir-tækjum, en einnig verða gerðar tilraunir með eldi hlýsjávarfiska og hefur barri (Sea Bass) orðið fyrir valinu. Barraseiði voru flutt inn á árinu og tilraunaeldi fór fram í eldisaðstöðu Máka hf. á Sauðárkróki.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Silfurstjörnuna hf. í Öxarfirði, Máka hf. á Sauðárkróki og IFREMER í Frakklandi.

Verkefnisstjóri: Logi Jónsson, dósent í lífeðlisfræði.

Botndýrarannsóknir á Íslandsmiðum

Árið 1991 hófst verkefnið Botndýr á íslandsmiðum (BIOICE). Markmið þess er að rannsaka hvaða botndýrategundir lifa innan íslenskrar efnahagslögsögu, skrá útbreiðslu þeirra, magn og tengsl þeirra við aðrar lífverur sjávar.

Farnir hafa verið átta rannsóknarleiðangrar, þar af tveir á árinu 1994. Auk skipa Hafrannsóknastofnunar hafa norsk og færeysk rannsóknaskip safnað sýnunum. Sýnin eru flokkuð og greind í rannsóknastöð verkefnisins í Sandgerði og starfa þar um 10 manns að jafnaði. Í flokkunarstöðinni eru einnig greind magasýni fyrir fjölstofnarannsóknir Hafrannsóknastofnunar.

Innlendir þátttakendur í verkefninu eru Hafrannsóknastofnun, Umhverfisráðuneytið, Náttúrufræðistofnun, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Sandgerðisbær og Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands. Erlendir þátttakendur eru Háskólinn og Dýrafræðisafnið í Kaupmannahöfn, Háskólinn og Náttúrufræðisafnið í Stokkhólmi, Háskólinn í Bergen, Háskólinn í Þrándheimi, Rannsóknastöðin að Kaldbak í Færeyjum, Fiskirannsóknastofan í Færeyjum og Háskólinn í Helsinki. Auk þess tengjast verkefninu allmargir vísindamenn til viðbótar frá Evrópu og Bandaríkjunum.

Vinnufundir hafa verið haldnir um flokkun og greiningu skeldýra (1993) og burstaorma (1994). Þátttakendur voru sex 1993 og fimmtán árið 1994, allir háskólanemar eða sérfræðingar. Flestir voru þeir frá Norðurlöndum en einnig frá öðrum Evrópulöndum og Bandaríkjunum.

Verkefnið er fjármagnað af Hafrannsóknastofnun, Umhverfisráðuneytinu, Sandgerðisbæ, Fiskveiðasjóði Íslands, Háskóla Íslands, Háskólanum í Bergen, Norræna sjávarlíffræðiráðinu, Fiskirannsóknastofu og Rannsóknastöðinni að Kaldbak í Færeyjum, Vestnorræna sjóðnum og Norrænu ráðherranefndinni.

Verkefnisstjóri: Guðmundur V. Helgason, M. sc.

Auðlindir og umhverfi

Norrænt samstarfsverkefni um fiskveiðisamfélög við Norður Atlantshaf. Tekið er mið af kenningum um nýtingu almenninga, umhverfisvanda og viðhorf til eignarréttar og opinberrar stjórnunar. Íslenski hlutinn beinist að þeim breytingum sem átt hafa sér stað á síðustu árum í sjávarútvegi Íslendinga og orðræðu þeirra um auðlindir hafsins og nýtingu á þeim. Áhersla er lögð á þorskveiðar og félagsleg áhrif kvótakerfis, breytingar á skiptingu aflaheimilda og pólitísk átök og siðferðilegar deilur um viðskipti með aflaheimildir.

Verkefnið hefur hlotið styrki frá Norrænu samstarfsnefndinni um ransóknir á sviði félagsvísinda (NOS-S), Norrænu áætluninni um rannsóknir á umhverfismálum (Nordic Environmental Research Programme), Vísindasjóði og Rannsóknasjóði háskólans. Verkefninu lýkur á árinu 1996. Niðurstöður úr sumum þáttum þess hafa verið birtar í dagblöðum hér á landi og nokkrar greinar og bókarkaflar bíða birtingar á alþjóðavettvangi. Stefnt er að ritun bókar að verkefni loknu.

Þátttakendur eru frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Íslandi.

Verkefnisstjóri er Dr. Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði.

Fiskifræði sjómanna

Rannsóknin fjallar um þekkingu sjómanna, einkum skipstjóra og stýrimanna, á því vistkerfi sem þeir nýta, eðli hennar og þýðingu. Áhersla er lögð á að kanna í hverju þekking sjómanna er fólgin, hvernig hennar er aflað, að hve miklu leyti viðhorf til hennar hafa breyst undanfarna áratugi, hvernig hún nýtist við stjórn fiskveiða um þessar mundir og hvort nýta mætti hana betur en nú er gert. Gagna er aflað með viðtölum og þátttökuathugun, einkum í Vestmannaeyjum og Sandgerði, en einnig verður stuðst við tölulegar upplýsingar og ritaðar heimildir. Niðurstöður verða bornar saman við niðurstöður rannsókna félagsvísindamanna á hliðstæðum viðfangsefnum í öðrum samfélögum. Rannsóknin hefur bæði vísindalegt og hagnýtt gildi. Henni er ætlað að stuðla að auknum skilningi á eðli starfsnáms, þekkingaröflun við fiskveiðar og hvernig megi sem best nýta alþýðlega þekkingu við stjórnun auðlinda.

Undirbúningur verkefnisins hófst árið 1994 og gert er ráð fyrir að því ljúki að þremur árum liðnum.

Rannsóknin er styrkt af RANNÍS og Rannsóknasjóði háskólans og er unnin í tengslum við Rannsóknasetur Vestmannaeyjabæjar og Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum.

Rannsóknin er í umsjón Dr. Gísla Pálssonar, prófessors í mannfræði.

Samstarf Háskóla Íslands og Vestmannaeyja

Samstarfi Vestmannaeyjabæjar og Háskóla Íslands, sem hófst í ágúst 1993, var fram haldið á árinu. Rannsóknasetur Háskóla Íslands og Vestmannaeyjabæjar var opnað formlega hinn 14. október 1994. Vestmannaeyjabær bar helming kostnaðar við kaup og endurbætur á húsnæðinu. Á sama stað eru til húsa útibú Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunar og eru fimm rannsóknarmenn nú starfandi þar. Auk rúmgóðra rannsóknar-stofa er ágæt aðstaða til kennslu og fundahalda í Rannsóknasetrinu, auk tveggja gestaherbergja sem fræðimenn geta fengið afnot af.

Við opnun Rannsóknasetursins voru m.a. annars kynntar niðurstöður meistaranámsverkefnis Rögnvalds Sæmundssonar verkfræðings, sem unnið var við setrið og fjallar um samstarf fyrirtækja á sviði fiskvinnslu.

Þegar er unnið að allmörgum öðrum rannsóknarverkefnum og má þar nefna fisksjúkdóma í sjávarfiskum, öryggismál sjómanna og athuganir á uppsetningu meltuvinnslu í Vestmannaeyjum.

Páll Marvin Jónsson Cand.Sci. hefur verið ráðinn forstöðumaður útibús háskólans í Vestmannaeyjum, mun hann hefja störf í ársbyrjun 1995.

Stjórnarformaður samstarfsins er Dr. Þorsteinn I. Sigfússon, prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands.

Meistaranám í sjávarútvegsfræðum

Unnið var áfram að undirbúningi meistaranáms í sjávarútvegsfræðum við Háskóla Íslands. Um er að ræða tveggja ára þverfaglegt og rannsóknartengt nám, opið þeim sem þegar hafa lokið fyrstu háskólagráðu eða hafa sambærilega menntun. Námið skiptist í þrjá hluta, kjarna sem nemur 20 einingum (e), sérsvið 10-20e og rannsóknarverkefni, 20-30e. Helstu markmið námsins eru að veita vandaða hagnýta og fræðilega menntun til starfa á hinum ýmsu sviðum sjávarútvegs og stoðgreinum hans og í öðru lagi að veita með náminu góðan undirbúning að frekara háskólanámi, m.a. doktorsnámi.

Haustið 1994 hófu fyrstu tveir nemendurnir meistaranám í sjávarútvegsfræðum við Háskóla Íslands.

Samstarf við sjávarútvegsháskóla í Tævan

Tveir stjórnarmenn stofnunarinnar fóru í maíbyrjun til Tævan ásamt fulltrúum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Útflutningsráðs og fyrirtækja tengdum sjávarútvegi. Tilgangur fararinnar var að koma á rannsóknarsamstarfi við tævanska sjávarútvegsháskólann og skyldar rannsóknarstofnanir.

Haldin var ráðstefna í Tævan þar sem íslenskir og tævanskir vísindamenn kynntu rannsóknir sínar tengdar sjávarútvegi í löndunum báðum. Auk þess kynntu fulltrúar íslensku fyrirtækjanna íslenskan búnað tengdan sjávarútvegi.

Hópurinn heimsótti Sjávarútvegsháskólann í Keelung auk ýmissa fyrirtækja og stofnana á sviði útgerðar, vinnslu og markaðssetningar sjávarafurða.

Útgáfulisti

1990

Þorkell Helgason, Örn D. Jónsson (ritstj.): Hagsæld í húfi. Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1990.

1991

Noralv Veggeland (ritstj.): Når fisken svigter. NordRefo, Akademisk forlag, Kaupmannahöfn 1991.

Ragnar Árnason, Trond Björndal (ritstj.): Essays on the Economics of Micratory Fish Stocks. Springer Verlag, Berlin 1991.

1992

Snjólfur ”lafsson, Þorkell Helgason, Stein W. Wallace, Ebba Þóra Hvannberg (ritstj.): Nordic Fisheries Management Model - Comprehensive Description. Nordiske Seminar og Arbejdsrapporter, 1992:501, Kaupmannahöfn 1992.

Örn D. Jónsson (ritstj.): Whales & Ethics. Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1992.

Gísli Pálsson, Ragnar Árnason, Örn D. Jónsson (ritstj.): Stjórn fiskveiða og skipting fiskveiðiarðsins. Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1992.

Bjørn Hersoug (ritstj.): Fiskerinæringens hovedtrekk Landsanalyser av Danmark, Færøyene, Grønland, Island og Norge. Nord 1992:30, Kaupmannahöfn 1992.

1993

Kjartan Magnússon, Örn D. Jónsson (ritstj.): Nordic Workshop on Predation Processes and Predation Models. Nordiske Seminar og Arbejdsrapporter, 1993:572, Kaupmannahöfn 1993.

1994

Stein W. Wallace, Snjólfur ”lafsson (ritstj.): The Nordic Fisheries Management Model - Description and Experience. Nord 1994:4, Kaupmannahöfn 1994.