Ársskýrsla 1997

Markmið Sjávarútvegsstofnunar

Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands var stofnuð 8. júní 1989 með reglugerð settri af Menntamálaráðuneyti. Samkvæmt reglugerðinni eru markmið Sjávarútvegsstofnunar eftirfarandi:

• að efla og samhæfa rannsóknir í sjávarútvegsfræðum við Háskóla Íslands,
• að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviði sjávarútvegsfræða,  
• að gefa út og kynna niðurstöður rannsókna í sjávarútvegsfræðum,
• að veita upplýsingar og ráðgjöf í sjávarútvegsmálum,
• að styðja kennslu og þjálfun í sjávarútvegsfræðum, einkum til meistaraprófs,
• að gangast fyrir námskeiðum og fyrir-lestrum í sjávarútvegsfræðum.
 

Stjórn stofnunarinnar skipa:

Dr. Páll Jensson, formaður, 
prófessor í rekstrarverkfræði, tilnefndur af verkfræðideild 

Dr. Gísli Pálsson, 
prófessor í mannfræði, tilnefndur af félagsvísindadeild,

Logi Jónsson, cand.real.,
dósent í lífeðlisfræði, tilnefndur af raunvísindadeild,

Dr. Ragnar Árnason,
prófessor í fiskihagfræði, tilnefndur af viðskipta- og hagfræðideild,

Dr. Valdimar K. Jónsson,
prófessor í vélaverkfræði, tilnefndur af háskólaráði.

Forstöðumaður stofnunarinnar:
Dr. Guðrún Pétursdóttir.

Skrifstofustjóri: Anna Guðný Ásgeirsdóttir

Starfsemi Sjávarútvegsstofnunar

Rannsóknir

Aðgerðarannsóknir á rekstri fiskeldisstöðva 
(Management Tools for Fishfarming and Processing)
Í samstarfi við m.a. hugbúnaðarfyrirtækið Novalia Ltd. í Skotlandi hefur verið unnið að rannsóknum á því hvernig nýta megi reiknilíkön aðgerðarannsókna sem hjálpartæki við ákvarðanatöku í fiskeldisstöðvum. Horft er bæði til eldis kaldsjávarfiska (m.a. lax) og fiska sem aldir eru í hlýjum sjó í Miðjarðarhafi (m.a. barri) og einnig til fyrirtækja sem, auk eldis, eru með fiskvinnslu til að auka verðmæti afurða.
Í verkefninu voru gerðar tilraunir með nokkrar gerðir bestunarlíkana, bæði af heildaráætlun framleiðslunnar og eins af skipulagi slátrunar sérstaklega. Einnig var unnið að þróun hermilíkans af rekstri fiskeldisstöðva. Áformað er að nýta niðurstöður þessa verkefnis til frekari rannsókna á reiknilíkönum af fiskeldi með það að markmiði að þróa hugbúnað fyrir stjórnendur fiskeldisstöðva.
Verkefnið fékk styrk frá Evrópusambandinu, svonefndan Exploratory Award undir CRAFT áætlun sambandsins. 
Verkefnisstjóri í aðgerðarannsóknahluta verkefnisins er Dr. Páll Jensson, prófessor rekstarverkfræði. 

Upplýsingakerfi skipstjóra fiskiskipa II
Þetta verkefni er framhald af verkefni sem lýst var í síðustu ársskýrslu og byggði á aflaskýrslugögnum Hafrannsóknastofnunar. Þar var fengist við þróun aflaspákerfis til að styðja ákvarðanatöku um val á fiskimiðum. Í þessu verkefni eru þróuð önnur hjálpartæki fyrir skipstjórnarmenn fiskiskipa. Þar á meðal eru þessir þrír þættir:

* Veiðarfæraskráning. Hugbúnaður sem gerir skipstjórnarmönnum kleift að skrá allar stillingar á veiðarfærum við hverja notkun og tengja þessar skráningar við færslur um aflabrögð. Vonast er til að samtenging skráninga og frekari úrvinnsla gagnist mönnum við að velja veiðarfæri og stillingar sem henta best aðstæðum hverju sinni.
* Sjávarföll og straumar. Verið er að þróa hugbúnað sem byggir á reiknilíkani Dr. Gunnars Guðna Tómassonar við Verkfræðideild HÍ  af sjávarföllum í hafinu umhverfis Ísland og setur niðurstöður reiknilíkansins fram á myndrænan hátt. Skipstjórnarmenn geta þá valið tiltekinn stað og beðið um mynd sem sýnir sjávarhæð og strauma þar eftir tiltekinn tíma.
* Tölvuvædd veðurkort. Í samstarfi við Veðurstofu Íslands er hugmyndin að þróa kerfi fyrir skipstjórnarmenn svo þeir geti séð spár um þróun veðurkerfa í myndrænni framsetningu á tölvuskjá sínum.
Verkefnið er styrkt af Tæknisjóði Rannsóknarráðs Íslands. Að verkefninu standa Radíómiðun ehf. og Verkfræðideild HÍ. 
Verkefnisstjóri er Dr. Páll Jensson, prófessor í rekstrarverkfræði. 
 

Félagslegir áhættuþættir í fiskiðnaði
Markmið verkefnisins er að greina félagslega áhættuþætti í fiskiðnaði, einkum við flæðilínu, til þess m.a. að hægt sé að stuðla að aukinni vellíðan, stöðugleika og þróun þekkingar meðal fiskvinnslufólks.  Með félagslegum áhættuþáttum er einkum átt við vinnuskipulag, svo sem einhæfni, einangrun, einbeitingu, vinnuhraða, vinnumagn, einstaklingseftirlit, upplýsingar um árangur og möguleika starfsfólks til að hafa áhrif á framkvæmd vinnunnar.  Rannsóknir hafa sýnt að þessir þættir geta haft afgerandi áhrif á heilsu og líðan starfsmanna.  Streita, síþreyta, depurð og líkamleg vanlíðan eru dæmi um einkenni, sem fram geta komið, vinni starfsmenn undir of miklu andlegu álagi samfara einhæfni.  Því er mikilvægt að tekið sé tillit til þessa við skipulag vinnunnar.  Með stöðluðum spurningalistum sem hannaðir hafa verið til að meta félagslega áhættuþætti í starfsumhverfinu og með eigindlegum rannsóknaraðferðum (viðtölum og staðarathugunum) verða ofannefndir áhættuþættir greindir.  Spurningalistarnir verða lagðir fyrir tvisvar, með tveggjja ára millibili.  Gildi rannsóknarinnar er fólgið í því að hér verða, í fyrsta sinn, félagslegir áhættuþættir í fiskiðnaði skoðaðir, einkum með tilliti til þeirrar tækniþróunar sem átt hefur sér stað við vinnslu sjávarafurða.  Þeirri þekkingu, sem fæst með niðurstöðum rannsóknarinnar, er ætlað að stuðla að því að í framtíðinni geti farið saman góð tækni og heilbrigt og ánægt vinnuafl.  Spurningar af þessum toga eru mikið til umræðu, t.d. meðal þeirra sem fást við iðnhönnun, félagssálfræði og stjórnun.  Því mun rannsóknin stuðla að hagnýtri umfjöllun um vinnuskipulag í fiskiðnaði og fræðilegri umræðu, m.a. á alþjóðavettvangi, um vinnuskipulag og félagslega áhættuþætti. 
Verkefnissstjóri er Dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og hefur hún hlotið til þess rannsóknastöðustyrk frá Rannís.
 

Fiskveiðar á hafi úti
Um er að ræða talsvert viðamikið samstarfsverkefni hagfræðinga, stærð-fræðinga og líffræðinga frá háskólum og rannsóknarstofnunum í Noregi, Finnlandi, Bretlandi og Portúgal auk Íslands. Verkefnið snýst um það að greina þau vandamál sem upp koma við nýtingu fiskistofna sem halda sig utan fiskveiðilögsagna eða ganga út fyrir eða á milli fiskveiðilögsagna, finna hagkvæmustu nýtingu slíkra stofna og kanna forsendur þess að sú lausn náist í samningum viðkomandi þjóðríkja. Til að varpa frekara ljósi á viðfangsefnið eru bláugga-túnfiskveiðar í Atlantshafi og veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum teknar til sérstakrar athugunar. Auk líffræði og hagfræði gegna leikjafræði og umfangsmiklir tölvureikningar miklu hlutverki í þessu verkefni. 
Verkefni þetta hófst árið 1996 og er áætlað að því ljúki í árslok 1999.
Heildarkostnaður er talinn um 60 milljónir króna en íslenski hlutinn um 14 milljónir. Evrópusambandið greiðir þorra þessa kostnaðar.
Verkefnisstjóri íslenska hlutans er Dr. Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði.
 

Auðlindir og umhverfi
Þetta er norrænt samstarfsverkefni um fiskveiðisamfélög við Norður- Atlantshaf. Þátttakendur eru frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Íslandi. Tekið er mið af kenningum um nýtingu almenninga, umhverfisvanda og viðhorf til eignarréttar og opinberrar stjórnunar. Íslenski hlutinn beinist að þeim breytingum sem átt hafa sér stað á síðustu árum í sjávarútvegi Íslendinga og orðræðu þeirra um auðlindir hafsins og nýtingu á þeim.  Áhersla er lögð á þorskveiðar og félagsleg áhrif kvótakerfis, breytingar á skiptingu aflaheimilda og pólitísk átök og siðferðilegar deilur um viðskipti með aflaheimildir. 
Verkefnið hefur hlotið styrki frá Norrænu samstarfsnefndinni um rannsóknir á sviði félagsvísinda (Nos-S), Norrænu áætluninni um rannsóknir á umhverfismálum (Nordic Environmental Research Programme-NERP), Rannsóknarráði og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.  Niðurstöður úr sumum þáttum verkefnisins hafa verið birtar í dagblöðum hér á landi og nokkrar greinar og bókarkaflar hafa verið birtar á alþjóðavettvangi. 
Verkefnisstjóri er Dr. Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði.

Fiskifræði sjómanna
Rannsóknin fjallar um þekkingu sjómanna, einkum skipstjóra og stýrimanna, á því vistkerfi sem þeir nýta, eðli hennar og þýðingu.  Áhersla er lögð á að kanna í hverju þekking sjómanna er fólgin, hvernig hennar er aflað, að hve miklu leyti viðhorf til hennar hafa breyst undanfarna áratugi, hvernig hún nýtist við stjórn fiskveiða um þessar mundir og hvort nýta mætti hana betur en nú er gert.  Gagna er aflað með viðtölum og þátttökuathugun, einkum í Vestmannaeyjum og Sandgerði, en einnig er stuðst við tölulegar upplýsingar og ritaðar heimildir.  Niðurstöður eru bornar saman við niðurstöður rannsókna félagsvísindamanna á hliðstæðum viðfangsefnum í öðrum samfélögum.  Rannsóknin hefur bæði vísindalegt og hagnýtt gildi.  Henni er ætlað að stuðla að auknum skilningi á eðli starfsnáms, þekkingaröflun við fiskveiðar og hvernig megi sem best nýta alþýðlega þekkingu við stjórnun auðlinda.
Rannsóknin er styrkt af RANNÍS og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og er unnin í tengslum við Rannsóknasetur Vestmannaeyjabæjar og HÍ í Vestmannaeyjum.
Verkefnisstjóri er Dr. Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði.
 

Botndýr á Íslandsmiðum (BIOICE)
er mjög umfangsmikið rannsóknarverkefni sem Sjávarútvegsstofnun á aðild að.  Markmið verkefnisins er að kortleggja botndýralíf í íslensku lögsögunni og koma upp varanlegum gagnagrunni með tilheyrandi safni sýna. 
Innlendir þátttakendur í verkefninu eru Umhverfisráðuneytið, Hafrannsóknastofnunin, Náttúrufræðistofnun, Líffræðistofnun H.Í.  og Sjávarútvegsstofnun H.Í., auk Sandgerðisbæjar, sem veitt hefur verkefninu ómetanlegan stuðning.  Erlendir þátttakendur eru Háskólinn og Dýrafræðisafnið í Kaupmannahöfn, Háskólinn og Náttúrufræðisafnið í Stokkhólmi, Háskólinn í Bergen, Háskólinn í Þrándheimi, Rannsóknastöðin að Kaldbak í Færeyjum, Fiskirannsóknastofan í Færeyjum og Háskólinn í Helsinki. Auk þess tengjast verkefninu allmargir evrópskir og bandarískir vísindamenn. 

Verkefnið er fjármagnað af Umhverfisráðuneytinu, Hafrannsókna-stofnuninni, Sandgerðisbæ, Fiskveiðasjóði Íslands, Háskóla Íslands, Háskólanum í Bergen, Norræna sjávarlíffræðiráðinu, Fiskirannsóknastofu og Rannsóknastöðinni að Kaldbak í Færeyjum, Vestnorræna sjóðnum, Rannsóknarráði Íslands og Norrænu ráðherranefndinni.
Farnir hafa verið þrettán rannsóknarleiðangrar, þar af einn á árinu 1997. Auk skipa Hafrannsóknastofnunarinnar hafa norsk og færeysk rannsóknaskip safnað sýnunum.  Sýnin eru flokkuð í rannsóknastöð verkefnisins í  Sandgerði.  Eftir að hafa verið flokkuð í um 50 fylkingar og flokka eru stærstu hóparnir flokkaðir áfram í um 100 ættir. Um 75 sérfræðingar hafa tekið að sér að greina sýnin til tegunda; flestir eru þeir erlendis en nokkur hluti sýnanna verður greindur af innlendum sérfræðingum. Vinnufundir hafa verið haldnir um flokkun og greiningu skeldýra (1993), burstaorma (1994) og marflóa (1995). 
Í Rannsóknastöðinni í Sandgerði voru 11 manns starfandi í árslok 1997 í níu stöðugildum. Þar hefur einnig verið unnið að öðrum verkefnum, t.d. greind magasýni og gerðar aldursákvarðanir á fiskum með lestri hreisturs og kvarna fyrir Hafrannsóknastofnun. Einnig hefur verið unnið að smærri verkefnum fyrir Líffræðistofnun Háskólans og Náttúrufræðistofnun Íslands.
Vorið 1997 var sótt um til Evrópusambandsins að Rannsóknastöðin fengi viðurkenningu sem “Einstæð vísindaaðstaða” (Large-scale Facility) í tengslum við mannauðsáætlun ESB. ESB styrkir vísindamenn í aðildarlöndum sínum til að dveljast á slíkum rannóknarstöðvum um lengri eða skemmri tíma.
Ljóst varð í nóvember 1997 að umsóknin yrði samþykkt og að rannsóknastöðin í Sandgerði verður fyrst íslenskra vísindastofnana til að hljóta nafnbótina Einstæð vísindaaðstaða.  Þessa nafnbót mun hún bera frá 1. apríl 1998 til 31. apríl 2000 (alls í 25 mánuði).  Þetta þykir mikil viðurkenning bæði fyrir verkefnið sjálft og ekki síður fyrir þá aðstöðu sem byggð hefur verið upp í Rannsóknastöðinni í Sandgerði.
Verkefnisstjóri er Guðmundur V. Helgason, M. sc.
 

Nýsköpun í menntun og starfsaðstöðu 

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna
Sjávarútvegsstofnun tók þátt í starfi undirbúningsnefndar á vegum Utanríkisráðuneytisins um möguleika Íslendinga á að taka að sér Sjávarútvegsskóla Háskóla S.þ.  Um er að ræða “post-graduate” nám og eðlilegt að HÍ kæmi að skipulagningu þess þegar á frumstigi. Starfið skilaði þeim árangri að fjölþjóðleg nefnd á vegum United Nations University mælti með að Sjávarútvegsskóli Háskóla S.þ. verði starfræktur hér á landi.  Samningur þess efnis var undirritaður af utanríksiráðherra, rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Tokyo og forstjóra Hafrannsóknarstofnunarinnar  í byrjun árs 1997.
Í samningnum felst að Hafrannsóknastofnunin mun sjá um rekstur skólans en í stjórn hans eiga sæti fulltrúar utanríkisráðuneytis, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins, sjávarútvegsfyrirtækja og Hafrannsóknarstofnunar, sem jafnframt er formaður stjórnar.
Háskólaráð skipaði forstöðumann Sjávarútvegsstofnunar fulltrúa Háskólans í stjórn en áður hafði hann átt sæti í undirbúningsnefnd utanríkisráðherra um skólann og í 5 manna nefnd sjávarútvegsráðherra sem gerði tillögur um húsnæðismál sjávarútvegsháskólans.  
Það traust sem Íslendingum er sýnt með því að fela þeim að fara með Sjávarútvegsskóla Háskóla S.þ. skiptir miklu, ekki aðeins fyrir þróun menntunar í sjávarútvegsfræðum hér á landi heldur fyrir hvers konar útflutning sem tengist sjávarútvegi.  Segja má að hér sé um gæðastimpil að ræða sem getur auðveldað Íslendingum markaðsstarf á ýmsum sviðum sjávarútvegs.  Einnig getur þessi skóli orðið mikil lyftistöng fyrir innlenda menntun á sviði sjávarútvegs því sú vinna sem verður lögð í hann getur nýst íslenskum nemendum, ekki síður en erlendum. Hann verður byggður upp með það í huga að Íslendingar taki að sér æ stærri verkefni á sviði alþjóðlegrar menntunar í sjávarútvegsfræðum,  ekki síst fyrir þróunarlöndin.
 

Samstarf um hagræðingu í kennslu og rannsóknum
Sjávarútvegsstofnun hefur undanfarin ár unnið að auknu samstarfi við stærstu rannsóknarstofnanir landsins í haf- og sjávarútvegsrannsóknum, Hafrannsóknastofnunina og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. 

Hugmyndin er að flytja matvælafræðiskor HÍ, Sjávarútvegsstofnun og tengdar greinar í næsta nágrenni við Hafrannsóknastofnunina og Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins að Skúlagötu 4.  Markmiðið er að stórauka samvinnu þessara stofnana og nýta fjárfestingar sem þar eru fyrir.
Sjávarútvegsstofnun hefur unnið að fjórum skýrslum um málið, einkum í samvinnu við Ágústu Guðmundsdóttur, prófessor í matvælafræði.  Í þeim fyrstu var hugmyndin kynnt, síðar vann VSÓ skýrslu fyrir Reykjavíkurborg og HÍ og haustið 1996 var unnið að skýrslu starfshóps sjávarútvegsráðherra sem varðar málið óbeint.
Verði af þessum framkvæmdum mun það gerbreyta aðstöðu til kennslu og rannsókna í matvæla- og sjávarútvegsgreinum, ekki aðeins innan HÍ heldur hjá öðrum sem vinna á þessu sviði.  Það mun hafa mikla hagræðingu í för með sér og styrkja allt umhverfi þessara greina.
Háskólaráði var kynnt staða mála í maí 1996 og aftur í apríl 1997. Lýsti það eindregnum stuðningi sínum við áformin og veitti  rektor heimild til að ráða starfsmann til að vinna sérstaklega að þessu verkefni. 
 

Umsjón með meistaranámi í sjávarútvegsfræðum

Þau tímamót urðu í sögu sjávarútvegs á Íslandi vorið 1997 að fyrstu meistarar í sjávarútvegsfræðum  útskrifuðust frá Háskóla Íslands.  Þeir eru Björn Knútsson, Gunnar Ólafur Haraldsson og Sigurður Pétursson. 
MSc-verkefni Björns fjallaði um þorskeldi á Íslandi og gerði hann  samanburð á arðsemi í strandeldi, kvíaeldi og fjarðaeldi. Lokaverkefni sitt kynnti hann í opinberum fyrirlestri 28.maí.
MSc-verkefni Gunnars Haraldssonar nefndist The Icelandic Fish Processing Industry - Estimation of Hybrid Translog Cost Functions og fjallaði um kostnaðarföll í íslenskri fiskvinnslu.  Hann hélt kynningarfyrirlestur sinn 30.maí..
MSc-verkefni Sigurðar Péturssonar fjallaði um söfnun lifandi flatfiska úr veiðum, eldi og flutning þeirra lifandi á neytendamarkað.  Hann kynnti sínar niðurstöður 30. maí.
Háskólinn fagnaði á sama tíma útskrift fjögurra annarra meistaranema sem allir höfðu unnið að rannsóknum í sjávarútvegsfræðum. Þau eru Kristján Guðni Bjarnason, sem útskrifaðist frá verkfræðideild og vann verkefni um aflaspárkerfi fyrir skipsstjórnarmenn; Pétur Snæland sem einnig útskrifaðist frá verkfræðideild og vann verkefni um tölvustudda vinnslustjórnun í bitavinnslu; Louise le Roux sem útskrifaðist frá raunvísindadeild og vann verkefni um áætlun stofnstærðar og stofnstærðarbreytingar rauða djúpsjávarkrabbans Chaceon maritae við Namibíu og Ederio Oliveira Almada sem  einnig útskrifaðist frá raunvísindadeild og vann verkefni um lífsferil Decapterus macarellus undan strönd Grænhöfðaeyja. 
Í tilefni af þessum tímamótum veitti Landhelgisgæslan fúslega heimild til að rektor H.Í. byði til fagnaðar 18. júní um borð í varðskipinu Ægi.  Var þar margt mætra manna úr menningar- og atvinnulífi, auk þess sem flestir fjölmiðlar sendu fulltrúa á vettvang.
 

Útgáfur og skýrslur

* Í janúar kom út ráðstefnuritið Property Rights in the Fishing Industry  sem inniheldur safn erinda sem flutt voru á ráðstefnu á vegum stofnunarinnar í september 1995.  Bókin er 100 bls.  Ritstjóri er Guðrún Pétursdóttir.  Útgefandi er Háskólaútgáfan.

* Á sama tíma kom út hjá Háskólaútgáfu bókin Essays on Statistical and Modelling Methodology for Fisheries Management í ritstjórn Ragnars Árnasonar og Tryggva B. Davíðssonar.

* Í október kom út ráðstefnuritið Whaling in the North Atlantic í ritstjórn Guðrúnar Pétursdóttur. Í ritinu eru 13 greinar um pólitíska og hagræna þætti tengda hvalveiðum í Norður-Atlantshafi auk lista yfir íslensk og erlend heiti hvala í norðurhöfum og skýringa á helstu hugtökum sem málið varða.  Bókin er 157 bls., útgefandi er Háskólaútgáfan.

* Í desember kom út safn erinda sem flutt voru á ráðstefnu um félagsleg áhrif kvótakerfa sem haldin var í Vestmannaeyjum í maí 1996.  Bókin nefnist Social Implications of Quota Systems in Fisheries og er 350 bls., útgefin af Norrænu ráðherranefndinni í ritröðinni Tema Nord. Ritstjórar eru Gísli Pálsson og Guðrún Pétursdóttir.

* Að ósk Landsnefndar Alþjóðaverslunarráðsins fór Sjávarútvegsstofnun yfir drög að kröfulýsingu fyrir umhverfisvænan sjávarútveg sem samtökin Marine Stewardship Council hafa tekið saman. Guðrún Pétursdóttir og Ragnar Árnason tóku saman skýrslu, alls 70 bls., um drögin Íslenskur sjávarútvegur og kröfur umhverfisverndarsinna - Staða íslensks sjávarútvegs miðað við drög Marine Stewardship Council að grunnreglum og viðmiðunum fyrir vottun um sjálfbærar veiðar. 
 
 

Ráðstefnur, málþing og fundir

Málþing um Hafrétt, viðskipti og vernd auðlinda var haldið í samstarfi við Alþjóðamálastofnun HÍ þann 28. Febrúar 1997.  Þar fjallaði Dr. Robert Friedheim, prófessor í alþjóðasamskiptum við  háskólann í Suður Kaliforníu um alþjóðleg áhrif Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna;  Dr. Ted McDorman, prófessor í alþjóðalögum við Háskólann í Toronto fjallaði um alþjóðlega viðskiptalöggjöf og umhverfismál; Peter Örebech, lögfræðingur og kennari í lögfræði sjávarútvegs við háskólann í Tromsø ræddi um úthafsveiðisamninginn og samkomulag um úthlutun veiðiheimilda úr flökkustofnum og loks ræddi Dr. Gunnar G. Schram, prófessor í stjórnskipunar- og þjóðarrétti við HÍ um mikilvægi alþjóðlegra umhverfissamninga fyrir Ísland.

Í samstarfi við High North Alliance í Noregi var 1. mars 1997 haldin alþjóðleg ráðstefna um pólitíska og hagræna þætti tengda hvalveiðum í Norður-Atlantshafi, "Whaling in the North Atlantic".   Meðal fyrirlesara voru Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, Jóhann Sigurjónsson sendiherra, Ray Gambell framkvæmdastjóri Alþjóða hvalveiðiráðsins, Kate Sanderson framkvæmdastjóri NAMMCO, Trond Bjørndal hagfræðiprófessor frá Bergen, Þórður Friðjónsson ráðuneytisstjóri,  Ted McDorman lagaprófessor frá University of Toronto, Jaques Berney fyrrum framkvæmdastjóri CITES, William Burke lagaprófessor í Seattle, Steinar Andresen frá Fridtjof Nansen Institutt í  Osló, Kjartan Høydal framkvæmdastjóri NORA í Færeyjum, og Robert L. Friedheim prófessor í alþjóðasamskiptum við University of Southern California, USA.

Hringborðsumræðum stjórnaði Lars Toft Rasmussen, fréttamaður við TV2 í Danmörku og tóku þátt í þeim m.a innlendir og erlendir  ráðherrar og þingmenn auk fulltrúa hagsmunasamtaka.  

Fyrirlestrar fluttir á ráðstefnunni voru gefnir út í samnefndu ráðstefnuriti haustið 1997 (sjá Útgáfur).

Eyjólfur Guðmundsson, doktorsnemi í auðlindahagfræði við University of Rhode Island, flutti 11. júní 1997 erindi um ný fiskveiðastjórnunarlög í Bandaríkjunum "The Sustainable Fisheries Act".  Eyjólfur fjallaði um þessi nýju lög, hverju þau breyta fyrir sjávarútveg í Bandaríkjunum og hvaða þýðingu aukin áhrif umhverfisverndarsamtaka á fiskveiðstjórnun í Bandaríkunum kunni að hafa  fyrir íslenskan sjávarútveg.

Opinn fundur undir heitinu "Hver á kvótann - hver ætti að eig'ann" var haldinn 8. Nóvember 1997.  Páll Skúlason rektor setti fundinn.  Frummælendur voru Þorgeir Örlygsson prófessor í kröfurétti,  Ragnar Árnason prófessor í fiskihagfræði, Birgir Þór Runólfsson dósent í hagfræði, Gísli Pálsson prófessor í mannfræði og Þórólfur Matthíasson, dósent í hagfræði. 
 
 

Námskeið

* Í samstarfi við Endurmenntunarstofnun HÍ var haldið námskeið um markað fyrir sjávarafurðir, tæki og tækni í Taiwan og Kína.  Aðalfyrirlesari var prófessor Bonnie Sun Pan frá National Taiwan Ocean University.
 
 

Fjármál Sjávarútvegsstofnunar

Sé litið til heildartekna hefur starfsemi Sjávarútvegsstofnunar farið vaxandi ár frá ári.  Þannig velti stofnunin 21 milljón króna 1992 en  nú, fimm árum síðar, er veltan komin upp í 36 milljónir.  
Stofnunin fer með umsýslu fjármála flestra rannsóknaverkefna sem hún tekur þátt í.  Á árinu hófust stór verkefni sem Evrópusambandið styrkir, auk þess sem verkefnum fjölgaði nokkuð. 

Rekstur Sjávarútvegsstofnunar er fjármagnaður annars vegar af fjárveitingum til HÍ og hins vegar af ýmsum sértekjum frá fyrirtækjum, stofnunum og innlendum og erlendum rannsóknasjóðum
 
 

Útgáfur

1990
Þorkell Helgason, Örn D. Jónsson (ritstj.): Hagsæld í húfi.
Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan,
Reykjavík 1990.

1991
Noralv Veggeland (ritstj.): Når fisken svigter.
NordRefo, Akademisk forlag, 
Kaupmannahöfn 1991.

Ragnar Árnason, Trond Björndal (ritstj.):
Essays on the Economics of Micratory Fish Stocks.
Springer Verlag,
Berlin 1991.

1992
Snjólfur Ólafsson, Þorkell Helgason, Stein W. Wallace, 
Ebba Þóra Hvannberg (ritstj.): 
Nordic Fisheries Management Model - Comprehensive Description.
Nordiske Seminar og Arbejdsrapporter, 1992:501,
Kaupmannahöfn 1992.

Örn D. Jónsson (ritstj.): Whales & Ethics.
Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan,
Reykjavík 1992.

Gísli Pálsson, Ragnar Árnason, Örn D. Jónsson (ritstj.): 
Stjórn fiskveiða og skipting fiskveiðiarðsins.
Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan,
Reykjavík 1992.

Bjørn Hersoug (ritstj.): Fiskerinæringens hovedtrekk
Landsanalyser av Danmark, Færøyene, Grønland, Island og Norge.
Nord 1992:30,
Kaupmannahöfn 1992.

1993
Kjartan Magnússon, Örn D. Jónsson (ritstj.): 
Nordic Workshop on Predation Processes and Predation Models.
Nordiske Seminar og Arbejdsrapporter, 1993:572,
Kaupmannahöfn 1993.

1994
Stein W. Wallace, Snjólfur Ólafsson (ritstj.): 
The Nordic Fisheries Management Model - Description and Experience.
Nord 1994:4,
Kaupmannahöfn 1994.

1995
Guðrún Pétursdóttir, Ágústa Guðmundsdóttir og Grímur Valdimarsson:
Matvæla- og sjávarútvegsgarður.
Háskóli Íslands og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, 
Reykjavík 1995.

Styrkjakerfi Evrópusambandsins og samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs.  
Í Ísland og Evrópusambandið.  Skýrslur fjögurra stofnana Háskóla Íslands. 
Háskólaútgáfan, 
Reykjavík 1995.

1996
Arnar Bjarnason:
Export or Die, The Icelandic Fishing Industry - 
the nature and behaviour of its export sector.  
Sjávarútvegsstofnun HÍ,
Reykjavík 1996.

Þorvaldur Pétursson & Örn D. Jónsson:
Sjávarafurðir á Japansmarkaði: Niðurstöður markaðsathugana.  
Lokaskýrsla verkefnisins Gjafavörur á Japansmarkað.   
Sjávarútvegsstofnun HÍ,
Reykjavík 1996.

1997
Guðrún Pétursdóttir (ritstj.):
Property Rights in the Fishing Industry 
Sjávarútvegsstofnun HÍ, Háskólaútgáfan,
Reykjavík 1997.

Ragnar Arnason og Tryggvi B. Davidsson(ritstj): 
Essays on Statistical and Modelling Methodology for Fisheries Management. 
Sjávarútvegsstofnun HÍ, Háskólaútgáfan,
Reykjavík 1997.

Guðrún Pétursdóttir (ritstj.):
Whaling in the North Atlantic 
Stjávarútvegsstofnun HÍ, Háskólaútgáfan,
Reykjavík 1997.

Gísli Pálsson og Guðrún Pétursdóttir (ritstj.):
Social Implications of Quota Systems in 
TemaNord, 1997:593,
Kaupmannahöfn 1997.

Guðrún Pétursdóttir og Ragnar Árnason:
Íslenskur Sjávarútvegur og kröfur umhverfisverndarsinna
Sjávarútvegsstofnun HÍ,
Reykjavík 1997.